30.08.2008 10:01

Jarðafaradagur mömmu

 

Þórdís Loftsdóttir fæddist á Gautshamri í Steingrímsfirði 8. ágúst 1926. Hún lést á
Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík 23. ágúst sl. Foreldrar hennar voru Loftur Bjarnason á Hólmavík  f. 17.6.1883 - d. 8.8.1956 og seinni kona hans Helga Guðbjörg Jónsdóttir f. 11.7.1895 - d. 8.9.1981. Alsystkin Þórdísar eru Gróa f. 1925, Jón f. 1927, Sigvaldi f. 1930 - d. 2006, Ingimundur Tryggvi f. 1932 - d. 1937, Guðjón f. 1934 og Karl Elinías f. 1937. Hálfsystkin hennar, börn Lofts og fyrri konu hans Gróu Einarsdóttur f. 18.12.1879 - d. 31.1.1921. eru drengur f. 1907 látin sama ár, Gísli f. 1907 - d. 1952, Aðalheiður f. 1910 - d. 2002, Björnstjerne f. 1911 - d. 1913, drengur andvana fæddur 1914 og Gestur f. 1916 - d. 1952. Þórdís var á fyrsta misseri send í fóstur hjá hjónunum að Skarði í Bjarnarfirði þeim Bjarna Jónssyni f. 1873 - d. 1948  og Valgerði Einarsdóttur  f. 1872 - d. 1932.  Uppeldissystkin  hennar á Skarði voru Torfi f. 1905, Soffía f. 1906, Jón f. 1907, Ólöf f. 1909 og Eyjólfur f. 1912, sem öll eru látin.

   Þórdís giftist 30.12.1944 Arngrími Jóhanni Ingimundarsyni á Svanshóli f. 25.7.1920 - d. 9.3.1985. Börn þeirra eru. 1) Erna f. 1945 eiginmaður Baldur Sigurðsson f. 1934 - d. 2008. Börn þeirra Árni Þór, Hafdís, Steinar Þór og Sölvi Þór. Erna á tvö barnabörn. 2) Jón f. 1946 eiginkona Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir f. 1948. Börn þeirra Halldóra Þórdís, Helena Ósk og Arnþór Ingi. 3) Jóhann Björn f. 1954 eiginkona Sólveig Hildur Halldórsdóttir f. 1959. Börn þeirra Halldór Páll og Nína Matthildur. Synir Jóhanns eru Unnar Rafn f. 1974 - d. 2007 og Jóhann. Synir Sólveigar eru Valgeir Örn og Hlynur Þór. Jóhann og Sólveig eiga fimm barnabörn.  4) Ingimundur f. 1957 sambýliskona Þorbjörg Hulda Haraldsdóttir f. 1958. Synir þeirra eru Arngrímur Jóhann, Haraldur Ingi, Erlingur Daði og Matthías Oddur. Ingimundur og Þorbjörg eiga fjögur barnabörn.  5) Guðjón Hjörtur f. 1963 eiginkona Signý Hermannsdóttir f. 1965. Börn þeirra eru Elsa Guðbjörg, Andri Þór og Hermann Elvar. Guðjón og Signý eiga eitt barnabarn. 6) Helga Lovísa f. 1966 eiginmaður Haraldur Vignir Ingólfsson f. 1964. Börn þeirra eru Þórdís Adda, Ingólfur Árni, Baldur Steinn og Karen Ösp.

Ingimunda Gestsdóttir tók á móti mömmu þegar hún fæddist, mamma var send í fóstur til Bjarna Jónssonar og Valgerðar Einarsdóttir á Skarði á fyrsta misseri ( sennilega 5 mánaðar ) vegna þess að Loftur og Helga ætluðu að slíta samvistum en ekkert varð úr því. Var vetrar tíma hjá Helga Sigurgeirs og Ólöfu Bjarnardóttur á Drangsnesi vann þar í fiski og fl. Helga og Loftur komu oft í heimsókn að Skarði og ætluðu að taka mömmu til sín en þá vildu hvorki hún né Bjarni og Valgerður það. Hún kynntist foreldrum sínum fyrst að ráði eftir fermingu. Var fyrst hjá þeim á Hólmavík er hún var að eiga Ernu þá um mánaðartíma.

Mamma ólst upp á Skarði hjá fósturforeldrum sínum til 17 ára aldurs. Hóf hún þá sambúð með pabba og bjuggu þau fyrst á Svanshóli. Árið 1947 fluttu þau á nýbýli sitt að Odda og bjuggu þar til dauðadags. Mamma sinnti fyrstu árin bústörfum ásamt uppeldi barna sinna enda pabbi bifreiðastjóri með búmennskunni og því oft á tíðum fjarverandi frá heimilinu yfir sumartímann. Jafnframt tók hún að sér afgreiðslustörf í útibúi KSH á Kaldrananesi sem pabbi sá um og rak. Er börnin urðu eldri og gátu hjálpað til við búskapinn færðust hennar störf meira inn á heimilið enda oft mannmargt í Odda. Ávallt var á borðum kaffi og sætabrauð og enginn gestur kom án þess að vera boðið  kaffi eða mat eftir því sem við átti. Ófáar gönguferðirnar voru teknar upp afleggjarann að þjóðveginum, til að afgreiða ferðamenn og fleiri um bensín og olíu á BP stöðinni er þar var. Þegar börnin voru að mestu leiti vaxin úr grasi vann hún við ræstingar í Klúkuskóla og Gvendarlaug hins góða yfir sumartímann. Bréfhirðinguna í Odda sá hún um í fjölda ára, uns hún var lögð niður. Tók hún þátt í að reka Hótel Laugarhól tvö sumur ásamt öllum húsmæðrum í sveitinni. Mamma sat oft og prjónaði á yngri árum enda gott að eiga hosur og vettlinga handa heimilisfólki. En á efri árum minnkaði prjónaskapurinn og fínni hannyrðir tóku við. Við andlát pabba tóku Baldur og Erna systir við rekstri meginhluta búsins enda höfðu þau búið félagsbúi í Odda fram að því. Mamma snéri sér þá eingöngu að heimilisstörfum og tók þá að sér matseld fyrir ýmsa aðila er voru við vinnu í Bjarnarfirði af og til. Í ágúst mánuði var berjatínsla hennar líf og yndi, var oft á tíðum ein heilu dagana í brekkunum. Á æskuárunum var það hennar afmælisgjöf að fá að fara í berjamó, hún hélt því áfram alla tíð, eða í það minnsta kíkti til berja eins og hún kallaði það. Berjatínur mátti mamma ekki heyra minnst á og voru þær bannaðar í hennar landi. Reyndar minnkaði hún ferðir sínar í berjamó síðustu árin, var alls ekki ein á ferð. Það kom til vegna nýrra landnema í Bjarnarfirði, óhræsis geitungunum sem henni var afar illa við.

Það stóð alla jöfnu ekki á mömmu ef minnst var á spil eða spilaleiki. Margar yndislegar stundir muna börnin hennar eftir við spilaborðið.

Ekki má gleyma söfnun hennar á spilum, pennum, gömlum munum, úrklippum úr dagblöðum og fl. Pennar sem fylla fleiri fleiri möppur. Úrklippur úr dagblöðum sem fylla möppur og kassa. Einnig safnaði hún fingurbjöllum.

Útsaumaðar myndir í eldhús prýða veggina hjá börnum hennar, ásamt dúkum undir jólatré. Barnabörnin sem hafa fermst eiga öll sína útsaumuðu fermingarstrengi og, og hún kom því þannig fyrir að þau tvö sem eftir eru að fermast fái sína.

   Útför mömmu fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag kl. 14 og jarðsett verður í Kaldrananeskirkjugarði.

Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 100
Samtals flettingar: 226185
Samtals gestir: 29233
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 00:33:59